ENVE kynnti nú fyrir skömmu nýja vörulínu G-Series þar sem G stendur fyrir Gravel. Það sem á ensku hefur verið kallað Gravel hjólreiðar er eitthvað sem við hér heima höfum nú þekkt lengi og felst í því að hjóla um malarslóða og leiðir sem við getum kanski stillt upp mitt á milli malbiks og fjallahjóla. Gömlu góðu íslensku malarvegirnir eru jú nákvæmlega svona slóðar. Þessi tegund hjólreiða hefur vaxið hratt og gjarnan í samhengi við lengri ferðalög um lítt eða óbyggðar slóðir. Þarna er oftast notast við hjól með racer- eða hrútastýri og hjólin eru hönnuð fyrir breið dekk og hlutföll þannig að þægilegt sé að hjóla á þeim lengri vegalengdir.
ENVE kynnir nú til sögunnar tvær tegundir gjarða fyrir þennan markað. Um er að ræða annars vegar G23 sem er 28″ (700cc) og G27 sem er 27.5″ (650b). Hvort tveggja eru carbon gjarðir og fáanlegar með DT240 eða Chris King nöfum. Þessar gjarðir eru gerðar fyrir dekkjastærðir 35-40mm og eru með þeim allra léttustu í þessum flokki. G23 gjarðasettið er einungis 1300 gr. Hönnun ENVE á gjarðahringnum sjálfum og kantinum er til þess gerð að lágmarka líkur á að sprengja dekk sérstaklega ef þær eru settar upp slöngulausar.
Skoðaðu https://enve.com/lp/g-series/ þar sem hægt er að finna allt um þessar snilldargjarðir.